Skilalýsing

Húsin eru byggð úr samlokueiningum úr steinull og stáli, steingráum að utan og hvítum að innan. Gólf eru steypt og slípuð. Blinduð tengi fyrir neysluvatn eru aðgengileg í hverju bili og eru þau upphituð með hitaveituofnum. Lóð skilast fullfrágengin, malbikuð og upplýst. Svæðið verður afgirt og aðgangi stýrt í gegnum tvö rafdrifin hlið. Sameiginlegur salerniskjarni er á svæði. Nýting á sameiginlegum bílastæðum fylgja öllum bilum en bílastæði í séreign fylgja ákveðnum bilum, þá staðsett fyrir framan viðkomandi bil. Sameiginleg sorpílat auk rafhleðslustöðva fyrir bíla. Húsfélag hefur verið stofnað um eignina sem sér um allan sameiginlegan rekstur. Engin vsk-kvöð er á bilunum.

Loftræsing

Í hverju bili verða tvær loftristar til að tryggja loftskipti, önnur neðarlega í hurð og hin ofarlega í vegg. Loftskipti eru náttúruleg, þ.e.a.s. án viftu.

Frárennsli

Í hverju bili er öryggisniðurfall, en gert er ráð fyrir þeim möguleika að setja upp og tengja vask fyrir ofan niðurfallið og leiða frárennsli frá vaski í niðurfallið.

Tilbúin skólpstammi verður í horni hvers rýmis, en í hann er hægt að tengja t.d. WC og handlaug í þeim tilvikum þar sem eigandi bils breytir því í atvinnuhúsnæði og stundar rekstur í bilinu með langvarandi viðveru.

Rafmagn

10A einfasatenglar eru í rýminu, ætlað til nýtingar við t.d. þrif.

Sé bili breytt í atvinnubil er skylda að setja upp eigin rafmagnsmæli og standa straum af sérnotkun í bilinu.

Möguleiki er að setja upp þriggja fasa rafmagn samhliða breytingu bils í atvinnurými.

Lýsing inni í hverju bili

Tvö LED ljós eru í lofti hvers bils sem veita góða almenna lýsingu.

Lýsing að utan

Á hverju húsi eru upp/niður ljós með tveggja innkeyrsluhurða millibili sem lýsa samkvæmt sólúri og veita ratlýsingu. Ljósastaurar eru einnig á lóðinni sem lýsa skv. sólúri og veita góða almenna lýsingu.

Ljóskastarar eru fyrir ofan hverja hurð, sem lýsa eftir viðverunemum. Lóðinni er skipt í nokkur svæði þar sem kveikingar fara eftir staðsetningu þeirra sem hreyfa sig. Þeir veita góða flóðlýsingu í myrkri svo allir geti athafnað sig vel að utan að vetri.

Kostnaður

Auk kaupverðs og húsgjald í húsfélag þarf kaupandi að standa skil á stimpilgjaldi af kaupsamningi og þinglýsingargjaldi af kaupsamningi. Þar sem um nýbyggingu er að ræða greiðir kaupandi skipulagsgjald, 0,3% af endanlegu brunabótamati, þegar það er lagt á.